Við 16 ára aldur öðlast einstaklingur rétt til að hefja ökunám undir leiðsögn ökukennara. Þetta er mikilvægt nám en jafnframt spennandi og nauðsynlegt að sinna því vel. Markmiðið með góðu ökunámi er að efla ábyrgðartilfinningu ökunema gagnvart umferðinni og gera hann færan um að aka bifreið af sem mestu öryggi og öðrum til sem minnstra óþæginda. Til þess að þetta markmið náist þarf nemandinn að stunda nám sitt vel og fá góða, jákvæða kennslu og gagnlegar leiðbeiningar um umferð og umferðarmenningu.

Ökunáminu er hægt að skipta í nokkra þætti: Ökukennsla í bíl, Ökuskóli 1, Ökuskóli 2 og Ökuskóli 3, æfingaakstur með leiðbeinanda, verklegt próf og bóklegt próf. Það eru mörg atriði sem þarf að hafa á hreinu og einfaldast að hafa samband við ökukennara sem aðstoðar við framvindu námsins allt þangað til ökuneminn er kominn með ökuskírteinið sitt í hendurnar.


Skipulag ökunáms

  

1. Þú byrjar á því að hafa samband við mig og við ákveðum fyrsta tímann til að hittast og hefja ökunámið.

2. Þú ferð í nokkra ökutíma í kennslubílnum undir leiðsögn ökukennara.

3. Þú byrjar nám í ökuskóla og klárar fyrsta námskeiðið (Ökuskóli 1).

4. Þú klárar að lágmarki 10 tíma samtals hjá ökukennara áður en æfingaakstur getur hafist.

5. Þú færð útgefið æfingaakstursleyfi og æfingaakstur hefst með leiðbeinanda. 

6. Þú ferð aftur í ökuskóla og klárar Ökuskóla 2.

7. Þú sækir um ökuskírteini.

8. Þú kemur aftur til ökukennara og klárar ca. 5 - 7 tíma í kennslubílnum. Undirbúningur fyriir bóklegt og verklegt próf.

9.  Þú ferð í bóklega ökuprófið.

10. Þú klárar Ökuskóla 3.

11. Þú ferð í verklega ökuprófið.

12. Þú færð ökuskírteinið.        

  

Mikilvægt er að vita að ég held utan um allt skipulag og framvindu ökunámsins. Ég sé um skráningu í ökuskólann og ökuprófin og aðstoða einnig við pappírsvinnuna í kringum æfingaakstursleyfið og ökuskírteinið.

 

  

Ökutímar

Þú verður að fara í 16 ökutíma að lágmarki hjá ökukennara áður en þú færð ökuskírteinið. 10 tíma fyrir æfingaakstursleyfið og 6 tíma áður en þú ferð í verklega ökuprófið.

Einn ökutími er 45 mínútur. Misjafnt er hve lengi er kennt í hvert skipti: einfaldur tími (45 mín.) eða tvöfaldur tími (90 mín.). Allt eftir því hvað er verið að taka fyrir í ökunáminu.

Ökuskóli

Ökunemi verður að fara í Ökuskóla 1 áður en hann fær æfingaakstursleyfið og Ökuskóla 2 áður en hægt er að fara í bóklega prófið. Ökuskóla 3 verður að klára áður en farið er í verklega prófið. Ökuskóli 1 og 2 eru ca. 12 kennslustundir hvor. Ökuskóli 3 er 4 klst. Ég sendi ökunema í þann ökuskóla sem hentar þeim best. Ég er meðal annars í samvinnu við:

                    Ökuskólann í Mjódd        Ökuskólinn ehf.         Ekill.is

Æfingaakstur

Að loknum Ökuskóla 1 og 10 tímum hjá ökukennara  getur æfingaakstur hafist. Í ökunámsbókina þína færðu vottanir frá ökuskólanum og ökukennaranum ásamt tryggingarfélagi og leggur inn umsókn um æfingaakstur hjá sýslumanni.

  

Ökuskírteini

Í Ökuskóla 2 færð þú “umsókn um ökuskírteini”. Þú skilar umsókninni inn til sýslumanns ásamt passamynd af þér. Ekki er hægt að skrá í ökupróf fyrr en búið er að skila inn umsókninni. Þegar þú ert búinn að ná verklega prófinu færðu "bráðabirgða ökuskírteini" sem gildir þangað til þú ert búinn að vera punktalaus í heilt ár. Þá ferðu í akstursmat og færð síðan fullnaðar ökuskírteini. 

 

Ökuprófin

Þegar þú ert búinn með Ökuskóla 2 og að skila inn umsókninni um ökuskírteini getur ökukennari  skráð þig í skriflega ökuprófið. Það má taka það 2 mánuðum fyrir 17 ára afmælisdaginn. Þegar þú hefur staðist það og lokið Ökuskóla 3 getur ökukennari skráð þig í verklega ökuprófið. Það má taka það viku fyrir 17 ára afmælisdaginn. Bæði prófin eru tekin hjá Frumherja.

 

Valur Örn Arnarson 2007 © Allur réttur áskilinn
Netfang: valur@okuskirteini.is